Vinnustaðarferð til Brussel og Bruges
Við starfsmannahópurinn hjá Kompaníferðum skelltum okkur nýverið í helgarferð til Belgíu og dvöldum eina nótt í Bruges og tvær í Brussel. Ferðin var hugsuð sem nokkurskonar vettvangsferð þar sem við könnuðum lendur og staðarhætti, kynntumst því sem borgirnar hafa uppá að bjóða til þess að geta síðan miðlað áfram til viðskiptavina okkar. Brussel er vel tengd við Ísland en Icelandair býður uppá beint flug þangað allan ársins hring og eru það því einungis 3.5 tímar í flugi sem aðskilja okkur við Belgíu.
Fyrstu nóttinni var eytt í Brugges, heillandi borg í miðaldarstíl þar sem skipaskurðir og steinhlaðnar götur setja svip sinn á allt umhverfið. Þótt arkítektúr borgarinnar sé að mörgu leyti frá miðöldum, þá eru markmið hennar afar nútímaleg en borgin hefur hlotið ýmis verðlaun fyrir sjálfbærni, menningu og góða varðveitingu á sögu sinni. Andrúmsloftið í Brugges er bæði rólegt og rómantískt og borgin býður uppá ýmsa möguleika þegar kemur að afþreyingu, t.d. siglingar um síkin, gönguferðir, heimsóknir á söfn og vandaða veitingarstaði fyrir sælkerana.

Næstu tvær nætur dvöldum við í Brussel, höfuðborg Belgíu og suðupotti ólíkra tungumála- og menningarheima. Í borginni eru veitingarstaðir og kaffihús á hverju einasta horni og aldrei langt í næstu heimabökuðu vöfflurnar eða ekta franskar í belgískum stíl. Gamli bærinn liggur í hjarta borgarinnar og aðaltorgið, Grand-Place, gæti vel heillað uppúr skónum jafnvel þá sem hafa þegar séð sinn skerf af evrópskum bæjartorgum. Grand-Place torgið er þakið ótrúlegum mannvirkjum í baróskum og gotískum stíl, mörg þeirra skreytt fallegri gullklæðningu.

Við hjá Kompaníferðum erum einróma sammála eftir þessa vel heppnuðu ferð að bæði Brussel og Bruges eru frábærir áfangastaðir fyrir fyrirtækjaferðina. Minni borgir eins og þessar geta verið tilvaldar fyrir fyrirtækjahópa en þá dreifist minna úr hópnum en í stórborgum og hópurinn á það til að eyða meiri gæða tíma saman í ferðinni.