Það eru fáar þjóðir jafn vinalegar og kráarsæknar og Írar. Dublin er tilvalin borg fyrir árshátíðarferðir fyrirtækja.Þangað er flogið daglega og flugtíminn tiltölulega stuttur.
Borgin er nokkuð dreifð en í miðbænum er nóg að sjá og gera. Þar má finna ótal marga staði með lifandi tónlist, góðum mat og heljarinnar úrvali af drykkjum á krana. Stemningin á kvöldin er einstök og alveg víst að íslenska hópnum er mjög vel tekið á pöbbaröltinu.
Temple Bar er vinsælt hverfi þar sem er að finna fjöldan allan af börum ásamt galleríum, listasöfnum og skemmtistöðum. Gríðarlega vinsælt er að heimsækja bruggverksmiðju Guinnes þar sem farið er í gegnum sögu bjórsins og framleiðsluferli. Á toppi byggingarinnar er útsýnisbar þar sem hægt er að tylla sér með góðan drykk og njóta frábærs útsýnis yfir borgina. Við mælum einnig með heimsókn í brugghús Old Jameson þar sem einnig er farið í gegnum sögu og framleiðsluferli drykkjarins.
Dublin er ekki aðeins fyrir hina bjór- og viskýþyrstu heldur er mikið úrval fjölbreyttra verslana í borginni fyrir þá sem það vilja. Allar helstu verslunarkeðjur er að finna í miðbænum og er sérstaklega vinsælt að rölta um O´Connell og Crafton stræti. Einnig er hægt að fara í verslunarkjarna í úthverfum borgarinnar þar sem verðlag er nokkuð lægra. Enn aðrir geta svo rölt um götur miðbæjarins, heimsótt söfn, kirkjur og sýningar svo fátt eitt sé nefnt.



AFÞREYING Í DUBLIN
Okkar metnaður liggur í því að gera upplifunina sem besta fyrir hópana okkar og bjóðum við uppá mun meira en bara flug og hótel. Við sérhæfum okkur í að skipuleggja afþreyingu fyrir hópinn á hverjum áfangastað fyrir sig. Við setjum upp dagskrá þar sem hver og einn einstaklingur í hópnum getur skráð sig og greitt fyrir sína ferð.
Það er fjöldinn allur af afþreyingu í boði sem leyfir þér að upplifa Dublin á einstakan hátt. Það hefur verið einna vinsælast að fara í bruggverksmiðju Guinnes, brugghús Jameson, göngu- og hjólaferð svo eitthvað sé nefnt.
Það er margt fleira í boði í Dublin og þessi listi alls ekki tæmandi Við finnum afþreyingu sem hentar hverjum hóp fyrir sig svo að allir fá eitthvað við sitt hæfi.